Við í Þjórsárskóla erum ofsalega ánægð með matinn sem við fáum í hádeginu. Maturinn er eldaður á staðnum af Kolbrúnu Kristínu Daníelsdóttur, eða Stínu eins og við köllum hana öll. Hann er handgerður frá grunni og er áherslan á það að hafa bæði hollan og góðan mat. Öll hráefnin koma úr heimabyggð og erum við heppin með það hversu mikil ræktun er t.d. á grænmeti í nágrenninu. Ilmurinn af gómsætum mat og grófu brauði tekur á móti okkur og auk þess er hrátt grænmetishlaðborð á boðstólnum daglega, sem er mjög vinsælt.
Stína hlustar líka á óskir nemenda sinna og að sjálfsögðu gerum við okkur dagamun. Í morgun brugðu nemendur í 7. bekk á það ráð að fara á hnén og biðja fallega um pizzuveislu. Þótt það sé ekki á matseðlinum tók Stína vel í þetta og hver veit nema okkar bíði heimagerðar pizzur, með miklu kjöti og grænmeti í næstu viku.
Stína kokkur setur sálina í matargerð sína og leggur sig fram við að búa til frábæran, hollan mat. Við, nemendur og starfsfólk skólans teljum okkur heppin að njóta þessara forréttinda.