Þjóðskógur

Um verkefnið

Þjórsárskóli nýtir þjóðskóg í skólastarfi og kennslu þar sem skógarvinna er eðlilegur hluti skólastarfsins.  Rök fyrir kennsluháttum útikennslu er aukin hreyfing og betri heilsa. Börn hafa þörf til að hreyfa sig og gefur útikennsla þann sveigjanleika og rými sem nemendur þurfa til að fá útrás fyrir þessum þörfum sínum. Úthald þeirra eykst og hefur útiveran jákvæð áhrif á samhæfingu, jafnvægi og hreyfigetu nemenda. Útinám ætti að efla frumkvæði og sjálfsmynd því kennsla sem á sér stað úti í hinu lifandi umhverfi virkar hvetjandi fyrir nemendur og virkjar fleiri skynfæri þeirra.

Þýðing fyrir skólastarfið

Þetta þýðir að reynt verður að koma fræðslu um skóga og skógarnytjar inn í sem flestar námsgreinar og samþætta kennsluna í skipulögðu námi í þjóðskógi. Þegar talað er um samþætta kennslu í þessu samhengi er t.d. gert ráð fyrir því að kenna úti í skógi stærðfræði, myndmennt, sögu, íslensku, landafræði, samfélagsfræði, náttúrufræði, tónmennt, og heimilisfræði, svo dæmi séu tekin. Kennsla sem fer fram á þennan hátt eykur möguleika þeirra til að skilja að efni sem kennt er í skólanum er ekki aðeins grein í skóla heldur raunveruleg fyrirbæri í umhverfinu.

Markmið skólans er meðal annars:

–          að kennarar noti skóginn sem uppsprettu verkefna í sem flestum námsgreinum

–          að skógurinn verði hluti af skólaumhverfinu og þannig hluti af eðlilegu skólastarfi

–          efla samþætta fræðslu og kennslu í Þjórsárskóla

–          að nemendur læri að meta skóginn til útivistar og leiks

–          að nemendur læri góða umgengni í skógi

–          að nemendur læri aðferðir til að nýta efnivið skógarins í handverki

–          að nemendur tengi nám sitt við raunveruleg fyrirbæri í umhverfinu

–          að byggja kennslu m.a. á kenningum Cornells um útikennslu

Vinnulag

Stýrihópur er skv. samningi við Skógrækt ríkisins. Hann samræmir vinnu, verkefni og finnur þeim stað í skóginum. Útikennsluhópur Þjórsárskóla vinnur grunnskipulag fyrir skólann, hvenær skógarkennsla er og hvað verður tekið fyrir hverju sinni. Í hópnum eru 5 kennarar sem setja upp skipulag en útfærsla er í höndum einstakra kennara eftir því hvaða verkefnum er úthlutað hverju sinni. Skipulag hópsins er borið undir stýrihóp til að tryggja að það sé framkvæmanlegt.

Skógrækt ríkisins miðlar efni og verkefnum sem hefur tekist vel í verkefninu Lesið í skóginn svo Þjórsárskóli geti útfært það enn frekar í samstarfinu og út frá ákveðinni kennslufræði.

Valmynd

Þróunarverkefni