Dagur íslenskrar tungu
Föstudaginn 16. nóvember var dagur íslenskrar tungu. Við í Þjórsárskóla héldum daginn hátíðlegan með því að taka þátt í Menningarkvöldi sem sveitafélagið okkar stóð fyrir í Árnesi.
Yngri og eldri kórar skólans fluttu nokkur lög, undir stjórn Helgu Kolbeins og síðan voru atriði frá hverjum aldursstigi. Nemendur í 1.- 2. bekk sungu lög af disk Hafdísar Huldar, Englar í ullarsokkum, nemendur í 3.- 4. bekk fluttu vísur eftir Hákon Aðalsteinsson og nemendur í 5.- 7. bekk fluttu ljóð eftir íslenska höfunda.
Skólinn fékk líka óvæntan glaðning frá Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja, ávísun upp á 100.000 krónur, til þess að styðja við leiklistarstarf Þjórsárskóla. Þökkum við kærlega fyrir góða gjöf.
Við viljum þakka nemendum fyrir frábæra kvöldstund á Degi íslenskrar tungu. Börnin voru sjálfum sér, okkur og foreldrum sínum til sóma.
Myndir frá undirbúningi og kvöldinu sjálfu hafa verið settar inn á myndasameign.