Skógardagur 21. apríl
Þriðjudaginn 21. apríl var skógardagur í skólanum. Þá var skrifað undir samning við Skógrækt ríkisins um samstarfssamning sem tekur við af því sem gert hefur verið með fjölmörgum skólum víða um land í samstarfi skólaþróunarverkefnisins Lesið í skóginn og Kennaraháskóla Íslands þar sem unnið var að því að þróa skólastarf í skógarumhverfi og stuðla að aukinni fjölbreytni og heilbrigði í skólastarfi.
Þessu samstarfi við Þjórsárskóla er ætlað að stíga enn lengra í þróunarátt og gefa m.a.svör við því hvernig má nýta skóginn sem best til að tengja skólann og nærsamfélagið við þá auðlind sem þjóðskógurinn er. Í samningnum er kveðið á um hvað skuli lögð áhersla á í samstarfinu en vonast er til að reynslan muni m.a. svara því hvernig nýta megi sem best þjóðskóg í skólastarfi og einnig hvernig hann getur nýst nærsamfélaginu. Samstarfinu er ætlað að standa í tvö ár og verður að því loknu teknar saman upplýsingar og þeim miðlað til þeirra sem helst geta nýtt sér þær innan skógræktar og skólastarfs.
Nemendum var skipt upp í fjóra hópa sem unnu að mismunandi verkefnum en færðust síðan á milli þannig að allir nemendur höfðu komið að fjórum ólíkum verkefnum í lok dags.Hóparnir voru blandaðir í aldri. Einn hópurinn snyrti stíg og klippti niður gulvíðigræðlinga sem ætlunin er að nota til að rækta upp skólalóðina til að auka skjól og útivistargildi hennar. Á annari stöð fór fram lummubakstur, á þeirri þriðju föðmuðu nemendur kært tré og reyndu á mismunandi skynfæri og á þeirri fjórðu var byggt hús úr greinum.
Í tilefni undirskriftarinnar var sungið og flutt leikrit um skógarferð nemenda þar sem m.a. var gert grín að nemendum og starfsfólki sem ýmisst gleymdi að klæða sig rétt eða á annan hátt sýndu sérstaka hegðun sem ekki hentar í útinámi.
Að lokum tóku allir þátt í skógarhlaupi og fóru vel heitir í skólabílinn á leið heim eftir eftirminnilegan skógardag í Þjórsárdalsskógi.