Fréttir af 3.-4.bekk

1

Verkefni unnin úr „drasli“

Eitt af markmiðum Grænfánans er að auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum og þar með talið að minnka úrgang. Í 3. og 4. bekk hafa nemendur fengið verkefni þar sem nýttar eru ýmiss konar umbúðir sem kalla má drasl og oftast hafna í ruslinu. Ýmiss konar pappi er klipptur niður í búta og skrifað á þá. Þannig er unnið með eintölu og fleirtölu, flokkun í kven-karl- og hvorugkyn, orðflokka, rím, samheiti, andheiti og fleira. Oftast vinna nemendur saman við verkefnin, tveir eða fleiri. Krakkarnir eru mjög ánægðir með þessa vinnu, hún skapar umræður um orðin sem glímt er við og það er líka góð tilbreyting að þurfa ekki að skrifa neitt. Ekki skiptir máli hvort setið er við borð eða á gólfinu.

Í lok síðasta skólaárs kom út blað, sem ber heitið Sumarmál, unnið af þáverandi nemendum í 3. og 4. bekk. Efnissöfnun stóð yfir í tvo vetur og þar er margt áhugavert. Núverandi 4. bekkingar voru að sjálfsögðu í 3. bekk í fyrra og þekkja því blaðið vel.  Í blaðinu má finna frásagnir af dvöl fyrrum nemenda skólans í Afríku og Ástralíu. Allir skiluðu viðtali við einhvern sem man svolítið aftur í timann og ljóst er að við áttum okkur ekki alltaf á hvað tímarnir hafa breyst ótrúlega hratt. Þar eru einnig sögur og brot úr dagbókum nemenda að ógleymdri orðaskjóðu (orðabók) en hún geymir ýmiss konar orð sem hafa verið til umræðu í kennslustundum. Krakkarnir stungu sjálfir upp á að flokka orðin í orðaskjóðunni í orðflokka og greina kyn þeirra. Hugmyndin féll í góðan jarðveg og 3. bekkingar eru einnig þátttakendur í flokkuninni. Nýjasta verkefnið úr „draslinu“  tengist orðaskjóðunni. Þar eiga nemendur að para saman orð sem hafa sömu merkingu. Þarna er sannarlega um endurnýtingu að ræða og verkefnin eru sérlega vinsæl enda nemendurnir afar áhugasamir.

Hér hefur verið sagt ofurlítið frá bekkjarblaðinu „Sumarmál“.  Eins og áður sagði tóku allir „blaðamennirnir“ viðtal og viðmælendur þeirra voru : Ásta á Hlemmiskeiði, Valgeir Ástráðsson, Helga í Þjórsárholti, Halla í Ásum, Jón Gunnlaugsson, Bjarni í Fjalli, Valgerður á Húsatóftum, Kristófer í Heiði, Hulda Gunnlaugsdóttir, Kjartan á Ólafsvöllum, Guðný í Laxárdal, Hafliði á Birnustöðum, Diddi í Sandlækjarkoti og Iris Maria Witt í Þýskalandi. Enn er hægt að eignast blaðið, það kostar 1000 krónur.

Árdís Jónsdóttir