Útilegan okkar

Útilegan okkar


Árleg útilega Þjórsárskóla er skemmtilegt uppbrot í skólastarfinu. Hún þjappar nemendum saman eftir sumarið og er að auki kjörið tækifæri til þess að læra að umgangast, bera virðingu fyrir og hlúa að skóginum okkar. Við fórum frá skólanum um hádegi og byrjuðum í berjamó við Skeljafell. Berin á síðan að nota í heimilisfræði í vetur.

Síðan var ferðinni haldið inn í skóg þar sem skipt var í hópa.

Nemendur í 1.- 4.bekk gengu 5 km hring í skóginum. Oft var stansað, spjallað um staðhætti, skoðaður gróður og farið í leiki með fræðilegu ívafi.

Nemendur í 5.-6. bekk söfnuðu greinum, lærðu að grisja og saman var síðan kveiktur eldur og nemendum kennt að kola. Kolin verða síðan notuð í vetur í myndlist.

Nemendur í 7. bekk völdu greinar, söguðu þær og notuðu undir kolla og bekki sem þau bjuggu til.

Í öllum hópunum var unnið verkefni sem fólst í því að afmarka svæði með bandi og skoða gróðurinn á því svæði sérstaklega: telja tré, flokka, skoða börkinn o.fl.

Þar sem veðurspáin var okkur ekki hliðholl, var ákveðið að fara til baka og gista í skólanum. Var það heilmikið ævintýri út af fyrir sig. Fyrst var borðaður góður matur og síðan var horft á mynd, spilað, lesið, farið í borðtennis og fleira. Þegar farið var að rökkva var farið út þar sem tálgaðar voru greinar, grillaðir sykurpúðar, drukkið heitt kakó, sungið, spilaður fótbolti og farið í fleiri leiki í blíðskapar veðri J

Allir voru þreyttir eftir viðburðaríkan dag og tók því ekki langan tíma að koma öllum í ró.