Útikennsla vikunnar
Nóvember byrjaði með útikennslu í skóginum og kennsluferð um Þjórsárdal. Mánudagur í skóginum var helgaður íslensku. Þá unnu nemendur verkefni í skóginum sem tengdust hlustun, orðflokkum, stafrófi, réttritun, munnlegum lýsingum og vinnu með orð og setningar. Skipt var eftir aldri í verkefnavinnunni. Elstu nemendur leikskólans voru með í för og tóku þátt í vinnu yngri nemenda. Á þriðjudag var samfélagsfræði. Þá var farið í Þjóðveldisbæinn þar sem nemendur fengu kynningu frá umsjónarmannni. Síðan var farið í kaffiboð í Búrfell. Að því loknu var haldið að Stöng þar sem nemendur fengu fræðslu frá kennurum um staðinn og búhætti áður fyrr. Þá var haldið í Gaukshöfða þar sem Eyþór Brynjólfsson tók á móti hópnum og sagði söguna af Gauk á Stöng. Nokkrir ungir nemendur lýstu því þannig að Gaukur hefði sýnt þeim hvar hann átti heima.