Undirbúningur rétta hafinn

Undirbúningur rétta hafinn

afrétturinn

Í dag hófst undirbúningur fyrir réttir í skólanum. Lilja fór á fjall í gær svo við sjáum hana ekki fyrr en við förum á móti safninu næsta fimmtudag. Hluti af þemavinnu okkar um réttir er hafinn með því að dagurinn í skólanum hefst alla daga með því að við komum öll saman og skoðum afréttakort og fáum að vita hvar fjallmennirnir eru staddir hverju sinni og hvaða verkefni bíða þeirra þann daginn. Svo syngjum við réttarsöngva eða önnur lög um fé og smölun. Þetta verður í gangi fram að réttum. Í næstu viku bætist svo við hrein þemavinna alla daga fram að hádegi. En eftir hádegi verður kennsla samkvæmt stundatöflu. Þemavinnan verður í þremur hópum. Einn hópur vinnur við ullarvinnslu, litar ull og skipuleggur verkefni úr ullinni. Annar hópur gerir teiknimyndasögu um fjallferðir. Þriðji hópurinn vinnur matargerð í anda rétta og ferðalaga á fjöll, t.d. baka þau flatkökur. Afrakstur þemavinnunnar verður svo til sýnis á foreldradegi í lok september. Kennslu vikunnar lýkur á hádegi á fimmtudag.

Á síðasta ári var eitt verkefni þemavikunnar að útbúa afréttinn á sviðinu í salnum. Meðfylgjandi mynd er af því verki.