Samfélagsfræði í 3. og 4. bekk
Undanfarið höfum við fjallað um íslenska þjóðhætti í samfélagsfræði. Fyrir jólin tóku nemendur viðtal við fólk sem man jólahald fyrir nokkrum áratugum. Árangurinn birtist í 18 blaðsíðna myndskreyttu blaði sem nefnist „Jól og jólaundirbúningur á liðinni öld“. Börnin fengu blaðið sitt fyrir jólin, hver las sína frásögn og rætt var um hvað hefur breyst í jólahaldi undanfarna áratugi. Þarna gafst börnunum tækifæri til að ræða við ömmu, afa eða aðra vini um bernskujól á síðustu öld.
Þann 6. febrúar s.l. ók Óli skólabílstjóri hópnum, 3. og 4. bekk ásamt umsjónarkennara og Jennýju heimilisfræðikennara, að Eystra-Geldingaholti. Þar horfðum við á myndband sem hefur að geyma leikritið „Næturgangan“. Leikritið fjallar um hversdagslíf fólks á Íslandi skömmu fyrir 1920 og er byggt á sannsögulegum atburðum sem gerðust í Árnessýslu. Leikritið er tekið upp í Flóanum þannig að fjöllin sem sáust voru kunnugleg.
Á bænum, sem sagan gerist, eru hjón, niðursetningur og vinnumaður. Leikritið hefst á því að vinnukona með tveggja ára barn kemur í vist á bæinn. Hún er hörkudugleg og vinnur utanhúss og innan. Á kvöldin leggst vinnumaðurinn upp í rúm, vinnukonan þurfti hins vegar að þjóna vinnumanninum, sjálfri sér og barninu ásamt ýmsum öðrum innanbæjarstörfum. Vinnukonan fékk mjög lítinn frítíma sagði að það væri of mikil vinna sem hún þyrfti að sinna, hún fengi ekki nógan hvíldartíma. Loks kom að því að hún neitaði að þjóna vinnumanninum. Hjónunum á bænum fannst það skrýtið uppátæki og voru ósátt. Leiðindi urðu og að lokum var vinnukonan rekin út í náttmyrkur með barnið sitt. Hún komst til frænku sinnar á Eyrarbakka. Hún kærði vistarsvikin og vann málið.
Krakkarnir fylgdust mjög vel með og tóku afstöðu til atburða. Strákarnir voru heillaðir af þeirri venju að vinnukonur þjónuðu vinnumönnum, drógu af þeim sokkana og nudduðu á þeim tærnar. Því voru stelpurnar hreint ekki sammála.
Við gerðum hlé á myndinni og fengum okkur hressingu en við höfðum meðferðis hveitikökur sem nemendur bökuðu sjálfir í heimilisfræði.
Að myndinni lokinni skoðuðum við gömlu baðstofuna í Eystra-Geldingaholti sem byggð var 1913. Sjónleikurinn Skugga-Sveinn var leikinn þar þegar baðstofan var ný, það fannst krökkunum ótrúlegt. Loks gengum við í skólann í blíðunni og kíktum aðeins í útihúsin á leiðinni. Við komum á leiðarenda rétt á undan skólabílunum eftir vel heppnaðan skóladag.