Landgræðsluferð

Landgræðsluferð

landgraedslaVeður var gott daginn eftir foreldraviðtöl svo ákveðið var að fara í landgræðsluferð skólans sem hafði áður verið frestað vegna veðurs. Verkefnin voru að dreifa úr rúllu, athuga hvernig til tókst með að setja niður stiklinga af gulvíði og loðvíði síðasta haust, bæta í þar sem vantaði og setja niður á ný svæði. Einnig var valið svæði til að bera áburð á en svæði við hlið þess látið vera án áburðar til að sjá muninn. Í móann við svæðið var dreift úr krækiberjahrati til að athuga hvort það kæmi upp. Síðan voru sett niður skilti á svæðið til að útskýra að þetta væri svæði skólans í landgræðslu. Svæðið hefur verið notað sem hljólabraut og þá um leið eyðilagt gróður m.a. stiklinga. Með skiltunum er markmiðið að upplýsa fólk um að svæðið er frátekið skólanum í landgræðsluvinnu. Þessi vinna sem fór fram í dag krefst þess að nemendur skoði síðar hvaða aðferð gefst best til uppgræðslu, þ.e. stiklingar, heyrúlla, áburður að hausti eða vori eða að gera ekkert. Ferðin á Skaftholt gekk vel og gengu 3.-7. bekkur til baka í skólann en 1.-2. bekkur fékk skólabíl.