Fjárhúsferð

Fjárhúsferð

1
Mánudaginn 21. maí fórum við ásamt Emilíu íþróttakennara með 1. til 4. bekk í heimsókn í fjárhúsið í Eystra-Geldingaholti.  Við fórum gangandi og vorum um 20 mínútur hvora leið. Hlýtt var í veðri, sólskin og þurrt. Þegar í fjárhúsið kom voru nokkrar ær að bera og fylgdust börnin spennt með því. Nemendur voru afar áhugasamir og flestir vildu fá að halda á lambi, jafnvel þótt þeir hafi nóg af lömbum heima hjá sér. Sumir dunduðu sér lengi við að klappa kindum og ræða við heimamenn. Við fjárhúsið er lækur og þar var líka hægt að njóta lífsins. Krakkarnir höfðu sjálf bakað kökur til ferðarinnar og voru þær snæddar úti í blíðunni.  Við komum svo í skólann aftur um svipað leyti og skólabílarnir og allir virtust glaðir með vel heppnaða fjárhúsferð. Þó að við búum í sveitasamfélagi eru ekki öll börn sem hafa tök á að fylgjast mikið með dýrum. Það er virkilega gaman að eiga þess kost að fara í heimsókn sem þessa, börnin nutu sín vel, sýndu áhuga og voru til fyrirmyndar. Svona ferðir eru alltaf lærdómsríkar. Bændum og búaliði í Geldingaholti þótti einnig gaman að sjá áhuga og gleði barnanna. Myndirnar sem hér fylgja segja meira en mörg orð.                                                          
                                                                                                Árdís og Jenný