Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu

klappleikurÍ tilefni af degi íslenskrar tungu og alþjóðlegrar athafnaviku voru í dag tveir viðburðir í Þjórsárskóla. Fyrir hádegi komu leikskólabörn af Leikholti í heimsókn og voru með samverustund á sal með 1.-3. bekk. Þessi hópur hittist á mánudögum og vinnur saman ýmis verkefni. Samverustund þeirra fólst í söng, sögulestri, flutningi á þulum og endaði með leik.

málþingEftir hádegi var málþing barna þar sem allir nemendur skólans sögðu frá hugmyndum sínum um það sem betur mætti fara í samfélagi þeirra, umhverfi og aðstæðum. Einnig tiltóku margir það sem er gott nú þegar. Hugmyndir komu fram um bætta umgengni við náttúruna, um ný leiktæki á skólalóðinni, íþróttaaðstöðu þeirra, bætta vegagerð, nýsköpununarmennt í skólum, félagslíf á miðstigi grunnskóla og samstarf við aðra skóla svo eitthvað sé nefnt.  Yngstu nemendurnir í 1.-3. bekk kynntu sig og sögðu eina setningu um það sem þau töldu gott eða þyrfti að bæta. Nemendur í  4. bekk fluttu erindi sín sem hófust á kynningu og og lýsingu á efni og endaði í rökstuðningi.  Eldra stigið, nemendur í 5.-7. bekk, fluttu sín erindi með myndasýningu þar sem þau höfðu sett mál sitt upp í ,,PowerPoint“.  Málþingið var opið öllum en sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og skólanefnd var sérstaklega boðið á málþingið til að heyra skoðanir og hugmyndir nemenda til að nýta við stefnumótun sveitarfélagsins.  Hátíðarsalur skólans var fullur út úr dyrum og máttu gestir sitja þröngt við að hlusta á hugmyndir þessara nemenda sem móta framtíðina.