Áhrif foreldra

Áhrif foreldra

Það hefur oft verið kynnt að áhrif foreldra séu mikil í velgengni barna. Þar er horft til margra þátta s.s. forvarnarstarfs, skólagöngu og þátttöku í skipulagðri félags- eða íþróttastarfsemi. Rannsóknir hafa sýnt að samvera foreldra og barna minnkar líkur á því að börn noti áfengi eða fíkniefni. Einnig sýna rannsóknir að stuðningur foreldra er afgerandi fyrir þátttöku barna í skipulagðri æskulýðsstarfsemi. Rannsóknir um þetta eru íslenskar og má finna niðurstöður þessar á www.rannsoknir.is

Nú í haust fóru Bolette og Sólrún og hlustuðu á Dr. Charles Desforges prófessor emeritus við Háskólann í Exeter. Hann starfar sem sjálfstæður rannsakandi og ráðgjafi í menntunarfræðum á sviði náms og kennslu, íhlutunar foreldra og stjórnunar í skólum.  Fyrirlestur hans var mjög áhugaverður og fjallaði um áhrif foreldra á skólagöngu barna sinna. Hann skýrði frá rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bretlandi varðandi nám og skólastarf. Þar kemur fram að foreldrar eru stærsti áhrifavaldurinn í skólagengi nemenda og áhrif þeirra eru mest inni á heimilinu. Það skiptir máli fyrir skólagöngu barna hvað foreldrar gera með börnum sínum þar og hvernig þeir nálgast viðfangsefni tengd skólanum. Gæði skólastarfs skipta miklu máli en stuðningur foreldra við nám barna sinna er lykilatriði varðandi velgengni þeirra í námi. Námsefnið þróast og breytist og foreldrar þurfa að vita meira nú en þeir þurftu að vita áður til að geta hjálpað til við nám barna sinna.  

Samvera foreldra og barna er jákvæð og stuðlar að því að sá mikli mannauður sem er í foreldrum flytjist á milli kynslóða. Á álagstímum er samvera oft það mikilvægasta og það besta sem börn okkar upplifa þó veraldleg gæði minnki. Ég þakka ykkur fyrir þann góða stuðning sem skólinn hefur notið í samfélaginu á undanförnum árum og hvet ykkur foreldra og aðra til að halda áfram að styðja við skólagöngu barna okkar allra.

Með nýárskveðju,

Ingibjörg María, skólastjóri Þjórsárskóla