Miðstig - Dagur íslenskrar tungu
Nemendur 5. bekkjar héldu upp á Dag íslenskrar tungu með ljóðalestri í skólastofunni. Áður fjölluðum við um hvers vegna við höfum Dag íslenskrar tungu og hvers vegna 16. nóvember var valinn til að minna okkur á mikilvægi íslenskunnar. Við ræddum um Jónas Hallgrímsson, horfðum á þátt í þáttaröðinni Orðbragð þar sem sagt er frá ævi hans og starfi, ljóðum og nýyrðum sem hann bjó til. Mörg þessara orða notum við mikið, t.d. himingeimur, landafræði, líffæri, sjónauki, tunglmyrkvi, eldsumbrot, jarðfræðingur, stjörnuspá og bringusund.
Ljóðin sem nemendur lásu eru frá ýmsum tímum og mjög ólík. Í þetta sinn ákvað ég að velja ljóð úr bókum sem nemendum í 5. bekk eru ætlaðar ásamt ljóðum frá fyrri tímum. Upplestur barnanna var tekinn upp og er nú á facebooksíðu miðstigs Þjórsárskóla.
Árdís Jónsdóttir
6. og 7. bekkur – Dagur íslenskrar tungu markar í raun upphafið að undirbúningi fyrir Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk. Í tilefni dagsins fluttu nemendur 7. bekkjar ljóð að eigin vali.
Nemendur 6. bekkjar fluttu ljóð sem heitir Ekki stunda einelti eftir Kristján Hreinsson. Þar tóku allir lesendur þátt í talkór. Allir stóðu sig með prýðii og var þetta hin besta skemmtun.
Kjartan Halldór Ágústsson