Öskudagur í skólanum
Öskudagur var öðruvísi dagur í skólanum. Nemendur og starfsfólk mættu í grímubúningum og svo byrjuðu allir daginn á því að hittast með umsjónarkennara og spjalla um grímubúningana og persónur þeirra. Svo var haldið í sal skólans þar sem kór Þjórsárskóla söng fimm lög. Dagskráin þeirra var fjölbreytt með íslenskum lögum, leik og söng, dægurlögum og frumsömdum texta. Þá var kórsöngurinn raddaður og Ástráður söng einsöng í Vegbúanum. Að loknum söng var hlustað á spunasögu Stebba um fólk í Þjórsárdal til forna sem bjó á bænum Höku við hlið Kjálka en Gagnauga var farið í eyði. Persónur sögunnar báru einnig undarleg nöfn sem fönguðu athygli barnanna. Eftir morgunmat var svo haldið í Árnes þar sem Jón Bjarnason sá um fjörið, leik og dans og var varla hægt að greina á milli nemenda og starfsmanna því allir skemmtu sér vel. Foreldrafélagið bauð öllum upp á gos og sælgæti þegar búið var að slá köttinn úr tunnunni. Nokkrir gestir voru með á grímuballinu, bæði ungir krakkar og foreldrar. Í heildina var þetta frábær dagur.