Skógarferð

Skógarferð okkar var farin á miðvikudag til fimmtudags í síðustu viku. Í upphafi var farið að tjaldsvæðinu Sandártungu í Þjórsárdal og þar var slegið upp tjaldbúðum með dyggri aðstoð foreldra. Að því loknu var unnið í skóginum í stöðvavinnu frá klukkan tvö til sjö. Stöðvarnar voru þrjár og voru nemendur og hópstjóri þeirra í klukkustund á hverri stöð. Ein stöðin var hreyfistöð þar sem farið var í margskonar leiki sem tengdust skógi, svínaflensu og íþróttum. Önnur stöðin var Cornell stöð þar sem nemendur fóru í leiki og lærðu eftir kennslufræði og hugmyndafræði Joseph Cornell. Þriðja stöðin var skógarvinna þar sem nemendur grisjuðu stíga og nýttu efnið sem til féll til að gera skýli. Skýlin urðu margskonar og má sjá þessi sex skýli ef gengin er gönguleiðin um Lambhöfða – rauð leið. Eftir kvöldmat var farið á leiksvæðið á tjaldsvæðinu, kveikt bál, sykurpúðar grillaðir og drukkið kakó. Stefán tónmenntakennari var með söng, hreyfileiki og fjör til að hita alla áður en skriðið var í poka. Upp úr klukkan tíu fóru allir nemendur með starfsmanni eða foreldri í sitt tjald og í háttinn. Það voru tíu foreldrar sem aðstoðuðu okkur í þessari ferð og gerði það alla hluti mun auðveldari en ella. Algjör ró var komin í tjaldbúðirnar fyrir miðnætti. Að morgni var morgunmatur milli sjö og átta og að því loknu var leikið og aftur farið á þrjár stöðvar en með léttari brag en daginn áður. Nú máttu nemendur vaða í ánni og sulla á einni stöð, leika í leiktækjum á annarri og finna 20 hluti á ónáttúrulegum stíg. Það voru 20 hlutir sem áttu ekki heima í skóginum sem hafði verið komið fyrir á stígnum. Að þessu loknu voru tjöld og farangur tekin saman og haldið heim á leið. Við skólann var farangur flokkaður eftir matinn og haldið heim á leið.
Nemendur stóðu sig einstaklega vel. Einungis tveir nemendur úr yngri hóp treystu sér ekki til að gista en þeir tóku fullan þátt í öllu öðru báða dagana. Foreldrar og starfslið var sem einn maður í að halda öllu gangandi og passa upp á að allir hefðu það gott. Þrátt fyrir mikla rigningu seinnipart miðvikudags skemmtu allir sér vel og unnu stórsigra með því að halda út alla ferðina. Til hamingju allir með fyrstu – en ekki síðustu – útileguna okkar.

Það koma myndir úr ferðinni inn á heimasíðuna von bráðar.