Í sumar var fimmta árið í röð sem verkefnið „Sumarlestur“ var í gangi í Þjórsárskóla en yfir 90% nemenda tók þátt. Markmiðið með verkefninu er að auka lestraráhuga, hvetja nemendur til þess að vera dugleg að lesa á sumrin og þar með viðhalda þeim framförum sem þau hafa náð yfir veturinn.  Að hausti er veitt viðurkenning fyrir þátttöku í verkefninu og þetta árið fengu börnin stuttermaboli merkta skólanum, verðlaunapening og bækur eða bíómiða. Þakkir til þeirra sem lögðu okkur lið: Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ísspor, Selfossbíó, Setberg bókaútgáfa og Útgáfufélag Lifandi vísinda. 

Friðjón Jónsson sjómaður kom til okkar í 5.-7. bekk með ýmislegt sjávarfang. Hann var með fyrirlestur um fiska og lífið á sjónum. Krakkarnir tóku vel á móti honum og voru frábær í að spyrja hann. Þau fengu svo að handfjatla fiskana, kryfja þá og skoða innyflin. 

Föstudaginn 29. sept. hélt 5. 6. og 7. bekkur á Skaftholtsfjall.  Fulltrúi Landgræðslunnar Anna Sigríður Valdimarsdóttir hitti okkur þar.  Við skoðuðum tilraunareitina sem við höfum verið að vinna með undanfarin ár.  Við tókum upp tepoka sem við höfðum sett niður síðasta vor.  Tepokarnir verða sendir erlendis til rannsóknar og hvernig niðurbrot er í þeim.  Gengið var á fjallið og heim aftur.  

Við í 1.- 4.bekk ætlum að vinna markvisst með að auka orðaforðann okkar í vetur. Lögð eru inn 3 orð á viku í íslensku sem við vinnum síðan með yfir vikuna í skólanum. Foreldrar eru hvattir til þess að taka þátt í þessu verkefni með okkur, nota orðin með börnunum heima og taka eftir því og hrósa þeim þegar þau nota orðin.  

Frétt um hjóladagurinn okkar á 

http://www.gongumiskolann.is/