Yfir skólaárið kemur skólahópur leikskólans í reglulegar heimsóknir til 1.-2. bekkjar með kennaranum sínum.  Unnið er með þema í þessum heimsóknum þar sem fléttuð er saman kennsla í mörgum námsgreinum. Lítið var um heimsóknir fyrir áramót vegna Covid en nú erum við farin af stað aftur. Við erum að ljúka við þema um risaeðlur og eitt af þeim verkefnum sem nemendur gerðu var að búa til sína risaeðlu í smíði. Hér eru nokkrar risaeðlur frá nemendum.

Við fengum skemmtilega heimsókn í janúar. Það voru þeir Vignir Ólafsson og Stefán Þórhallsson, kennarar tónlistarskólans sem komu til okkar með gítara og trommur, sögðu frá hljóðfærunum og spiluðu nokkur lög. Fróðleg, lífleg og skemmtileg heimsókn.

Á miðvikudögum vinnum við í blönduðum hópum í 1.-4.bekk. Áherslan hjá okkur hefur verið á umhverfið, sjálfbærni og vistheimt. Við byrjum yfirleitt á göngutúr þar sem við erum að skoða okkur um, plöntur, tré, fugla, veðrið, áttir og margt fleira. Við söfnuðum plöntum og laufum í haust sem við erum búin að þurrka, fórum út að grisja tré, nýttum greinarnar í jólaföndur og sem eldivið. Núna höldum við áfram og skoðum meira um fugla, sérkenni þeirra og fæðu og söfnun myndum af þeim fuglum sem eru í umhverfi okkar. Við ætlum líka að búa til öruggan stað fyrir fuglana til að borða á á skólalóðinni og búa til fuglafóður.

   

Við minnum á fræðsluerindið um örugga tölvunotkun barna og unglinga, sem skólinn býður upp á, þriðjudaginn 26. janúar kl. 19.30. Aðgangsupplýsingar eru að finna í tölvupósti.

 

Oft er líf og fjör á skólalóðinni. Margir skemmtilegir leikir í gangi. Einn af þeim leikjum sem þykja skemmtilegir á haustin er smalaleikur. Því þótti Lilju smíðakennara og Elínu útinámskennara tilvalið að búa til hest með nemendum úr efniviði úr skóginum. Eins og sést á myndinni er klárinn fangreistur og vel hægt að fjölmenna á hann.