Þriðjudaginn 7. nóvember fengum við Aðalstein Ásberg og Svavar Knút í heimsókn. Þeir eru á ferðinni um landið í tengslum við verkefnið „Skáld í skólum“ en markmið með dagskránni er að kynna fyrir nemendum íslensk ljóðaskáld. Þeir félagar fluttu okkur æviágrip Tómasar Guðmundssonar skálds í máli, myndum og með ljóðum og söng. 

 

13. október sýndum við samstöðu og tókum þátt í bleika deginum sem var víða á landinu, tileinkaður baráttunni gegn krabbameini.

27. október var bangsa og náttfatadagur.

  

Í sumar var fimmta árið í röð sem verkefnið „Sumarlestur“ var í gangi í Þjórsárskóla en yfir 90% nemenda tók þátt. Markmiðið með verkefninu er að auka lestraráhuga, hvetja nemendur til þess að vera dugleg að lesa á sumrin og þar með viðhalda þeim framförum sem þau hafa náð yfir veturinn.  Að hausti er veitt viðurkenning fyrir þátttöku í verkefninu og þetta árið fengu börnin stuttermaboli merkta skólanum, verðlaunapening og bækur eða bíómiða. Þakkir til þeirra sem lögðu okkur lið: Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ísspor, Selfossbíó, Setberg bókaútgáfa og Útgáfufélag Lifandi vísinda. 

Árlega tökum við þátt í verkefninu Jól í skókassa. Það er hluti okkar í verkefninu um sjálfbærni. „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn og fullorðna til þess að gleðja börn sem búa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim gjafir. Skókassarnir verða sendir til Úkraínu. Allur skólinn tekur þátt í verkefninu, lögð er áhersla á að nýta það sem til er, setja í kassana dót og fatnað sem börnin eru hætt að nota. Góðar umræður spunnust í kringum þessa vinnu m.a. um kærleik og hjálpsemi.

Friðjón Jónsson sjómaður kom til okkar í 5.-7. bekk með ýmislegt sjávarfang. Hann var með fyrirlestur um fiska og lífið á sjónum. Krakkarnir tóku vel á móti honum og voru frábær í að spyrja hann. Þau fengu svo að handfjatla fiskana, kryfja þá og skoða innyflin.