Á öskudaginn mættu nemendur og starfsfólk klætt skrautlegum búningum í skólann. Kl. 10 byrjaði síðan ball í Árnesi undir stjórn Jóns Bjarnasonar. Það var mikið fjör og allir tóku þátt í skemmtilegum leikjum og dansi.  Þá var kötturinn sleginn úr tunnunni, en nemendur höfðu sjálfir tekið þátt í að útbúa og skreyta tunnurnar.  

Foreldrafélagið sá síðan til þess að allir fengu sælgæti og ávaxtasafa. Þetta var litríkur og skemmtilegur dagur og fjölmargar myndir eru komnar á heimasíðu skólans frá deginum. 

Föstudaginn 9 október var haldin umhverfisþing á Grand Hotel í Reykjavík. Okkur í Þjórsárskóla var boðið að koma með tvo nemendur til að kynna vistheimtverkefni skólans.Það voru Kristín Huld Stefánsdóttir og Haukur Arnarsson sem héldu á þingið ásamt umsjónarkennara sínum. Hvolsskóli og Grunnskólinn á Hellu voru einnig með kynningu á samsvarandi verkefni en þeir skólar eru einnig Grænfánaskólar. Eftir kynninguna hittu nemendurnir umhverfisráðherrann okkar hana Sigrúnu Magnúsdóttur. Þeim var hrósað mikið fyrir hversu vel þau hefðu flutt kynninguna og einnig fyrir prúða framkomu. Erum við í skólanum mjög stolt af þeim. Hér er linkur á kynningu þeirra: http://streymi.nyherji.is/Mediasite/Play/918ebf2e875d468c87a1c7a872b718c11d

Nemendur í 5.6. og 7. bekk hafa nú lagt út tilraunareiti í tvö ár í röð þar sem mismunandi landgræðslu- eða vistheimtaraðgerðir eru prófaðar.
Bandaríska sendiráðið styrkir verkefnið sem felur í sér fræðslu og þekkingarsköpun meðal nemenda, kennaraog nærsamfélags skólanna, þar sem áhersla er lögð á þátttöku nemenda í rannsóknum og vistheimtaraðgerðum (endurheimt lands) auk þess sem það eflir getu Grænfánaskóla til að takast á við flóknari umhverfismál. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar á þessu skólastigi sem vitað er um í heiminum, en það er unnið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og grunnskólana á Hellu, Hvolsvelli og Þjórsárskóla.

 

Dagur íslenskrar náttúru 16. september var nýttur til útiveru og landgræðslu hjá okkur í Þjórsárskóla. Allir nemendur skólans fóru í hjólaferðir. 1. og 2. bekkur hjólaði um nánasta umhverfi skólans. 3. og 4 bekkur hjólaði að Skaftholtsfjalli og hitti þar nemendur í 1. og 2 bekk sem voru keyrðir þangað. Þessir fjórir bekkir gengu upp á Skaftholtsfjall og skoðuðu tilraunareitina í Vistheimt verkefninu okkar. Þar hittu þau Sigþrúði Jónsdóttur hjá Landgræðslunni og fræddi hún þau um uppgræðslu landsins. Síðan fóru þau í verkefni við uppgræðslu. Notuð var heyrúlla og þau dreifðu heyi um svæðið. Við höfum farið þangað í nokkur ár að græða landið.
5.-7 bekkur hjóluðu Hælshringinn. Hjólað er að Ásaskóla, yfir Kálfá, upp hjá Austurhlíð og framhjá Hæli og að skólanum. Einar á Hæli kom til að ferja okkur yfir ána en flestir létu sig hafa það að reyna að hjóla yfir ána sem er erfitt þar sem hún er frekar grýtt. Þegar yfir var komið vildu flestir reyna aftur að hjóla yfir. Sumir hlupu yfir ána. Það voru blautir en ánægðir nemendur sem héldu hjólandi áfram í skólann. Við vorum einstaklega heppin með veður þennan dag. Sólin skein og það var hlýtt en vindurinn var aðeins að blása. Nemendur voru mjög duglegir í ferðinni og má með sannri segja að gleði og ánægja ríkti í hópunum

.

1

3. og 4. bekkur í Þjórsárskóla fékk gefins mottu í kósý hornið frá IKEA nú á dögunum. Bekkurinn er mjög glaður og þakklátur fyrir þessa fallegu gjöf! Mottan á eftir að nýtast vel í leik, námi og starfi enda skiptir notalegt og hlýlegt námsumhverfi miklu máli í upplifun barna og vellíðan þeirra.

Kveðja frá 3. og 4. bekk og umsjónarkennara þeirra, Hildi Lilju.

Í fyrstu vikunni á skólanum förum við árlega í útilegu inn í Þjórsársdal. Lagt var af stað á fimmtudegi og byrjað var á því að vinna á fjölbreyttum stöðvum. Þar vorum við að grisja, vinna með íslensk orð, tálga, skoða skordýr og plöntur og undirbúa aðstöðuna okkar. Seinnipartinn voru síðan settar upp tjaldbúðir. Um kvöldið naut fólk veðurblíðunnar og átti góðar stundir saman.

Gist var í tjöldum sem nemendur settu sjálfir upp með aðstoð. Á föstudagsmorgninum var síðan farið í ratleik þar sem nemendur leystu hinar ýmsu þrautir og áherslan var á samvinnu eldri og yngri nemenda.

Útilegan var vel heppnuð og er góður liður í að efla samheldni í hópnum eftir sumarið.